Úti að skíta

Fjölgun ferðamanna hefur skilað íslenska ríkinu töluverðum fjármunum í formi skatta og gjalda.

Hvert þeir peningar hafa farið er ekki vitað, þar sem að stjórnsýslan býður ekki upp á að fylgst sé með fjárútlátum. Fjölgun ferðamanna getur verið góður hlutur, en þó eru nokkrar neikvæðar hliðar á málinu.

Fyrst ber að nefna salernismálin. Mikil fjölgun fólks á litlu svæði kallar á að fleiri salerni þurfi. Eitthvað ber á því að ferðamenn séu bókstaflega bara úti að skíta. Ef að keyrt er frá Kirkjubæjarklaustri til Hafnar í Hornafirði sést bersýnilega að ekki er gert ráð fyrir því að fólki verði mikið mál á þessari 201 km löngu leið og hún er ekkert einsdæmi. Vissulega eru einhver klósett á leiðinni, en þau eru of fá og langt á milli.
Sama staða er uppi ansi víða um hringveginn og á öðrum vegum. Þjónusta við þessar tæpu 2 milljónir af ferðamönnum er lítil þegar þeir yfirgefa borgina. Gott væri ef að eitthvað af þeim peningum sem að skila sér í kassann af öllum þessum ferðamönnum væru settir í það að byggja upp salernisaðstöðu við þjóðveginn. Jafnvel væri hægt að setja upp lundabúð í hinum enda bygginganna. Einhverjir bera því fyrir sig að ferðamenn séu mótfallnir því að borga fyrir að hafa afnot af klósettum en koma samt flestir frá löndum þar sem það þykir sjálfsagður hlutur að greiða fyrir afnotin. Ég hef því miklar efasemdir um þessa fullyrðingu.

Þeir sem keyrt hafa vegspottann á milli Víkur og Hafnar sjá að á þessari leið eru þó nokkrar einbreiðar brýr. Það getur nú varla talist þjóðinni til tekna að árið 2016 sé ekki búið að tvöfalda allar brýr. Vegirnir eru líka flestir þröngir og getur verið mjög erfitt/varasamt að keyra þá þegar túrhestar á hjólhestum eru mikið á ferðinni.Nokkrir tugir kílómetra á hringveginum eru ómalbikaðir. Velta má því fyrir sér hvort að það geti verið að Vegagerðin sé fjársvelt. Getur verið að bifreiðagjöldin séu ekki að skila sér í vegagerð? Það er mikil og dýr framkvæmd að fara í þessar breytingar, en fólkið á landsbyggðinni á það hreinlega skilið að einbreiðum brúm verði hreinlega útrýmt. Ef hægt er að naga göng í gegnum fjöll á fáförnum leiðum ætti að vera hægt að setja peninga í að byggja brýr. Það að ætla sér að komast inn á Selfoss með góðu móti á föstudagseftirmiðdegi að sumri til er glapræði.Þar er búið að lofa nýrri brú til að taka þungann af traffíkinni í gegnum bæinn, þar sem gamla brúin er löngu hætt að anna umferðinni. Eitthvað lætur hún á sér standa.

Einhvers staðar verða þessir ferðamenn líka að gista. Mikið af húsnæði sem að gæti hentað á hinum almenna leigumarkaði er sett í leigu til ferðamanna og skapar það mikinn þrýsting á almenna leigumarkaðinn. Þetta veldur því að Íslendingar geta átt í stökustu vandræðum með að finna sér leiguhúsnæði á hagstæðu verði. Lausn á þessu gæti verið að bæta við hótelum, en önnur lausn væri að byggja upp félagslegt húsnæði sem gæti betur hentað þeim efnaminni, nú eða bara þeim sem vilja ekki eyða öllum launum sínum í þak yfir höfuðið. Margar nágrannaþjóðir okkar státa af góðu félagslegu kerfi og þeir íslendingar sem þar hafa búið láta vel af því.

Með allri þessari fjölgun verður að skoða betur móttökuna. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er orðin of lítil. Það er erfitt að koma öllum skemmtiferðaskipunum til hafnar. Hvað er best að gera? Væri stórskipahöfn í Þorlákshöfn kannski hluti af svarinu? Það myndi stytta ferðatíma margra skipa um nokkra tíma að geta lagt að í Þorlákshöfn frekar en að siglæa fyrir Reykjanes og til Reykjavíkur. Það sparar eitthvað af eldsneyti og þá er styttra að fara með ferðamennina á Gullfoss og Geysi. Þurfum við að fara í umtalsverða stækkun á Leifsstöð? Við verðum í það minnsta að velta upp einhverjum hugmyndum um hvernig við getum gert betur og stytt ferla.
Fjársvelti lögreglu hefur sennilega ekki heldur farið framhjá mörgum. Það ætti að liggja í augum uppi að fjölgun ferðamanna þýðir aukið álag á lögregluna og ekki var á það bætandi. Nú síðast var að koma upp sú staða að hætt er að rannsaka einhvern hluta kynferðisbrota vegna manneklu.

Ein af hættum þess að vera mjög vinsæll ferðamannastaður er að á einhverjum tímapunkti hættir fólk að vilja koma. Annaðhvort vegna þess að það er búið að koma eða það er orðið of mikið af ferðamönnum til að fólk nenni að reyna að troða sér til að sjá glitta í náttúruperlur í mannmergðinni. Þar fyrir utan eru náttúruperlur bara náttúruperlur vegna þess að menn hafa ekki spillt þeim. En það breytist þegar fjöldi ferðamanna er orðinn þetta mikill. Átroðningur skemmir til lengri tíma og hætta er á að skaðinn verði óbætanlegur. Er kannski er kominn tími til að setja kvóta á ferðamenn á Íslandi, a.m.k þar til búið er að styrkja innviði landsins til að anna sexföldum fjölda ábúenda? Eða er betra að stökkva strax til og styrkja innviðina og sleppa allveg við kvótasetninguna? Þetta eru málin sem að við þurfum að skoða strax eftir kosningar.


Þrælslundin

Einföld spurning.
Hverjir hagnast mest á því að ungt fólk bindi sig í klafa
til 40 ára og eigi fáa kosti á því að flytja sig um set og
þá sérstaklega erfitt með að flytjast erlendis?

Gerið ykkur engar grillur um annað en að þið séuð bara ódýrt
vinnuafl ríkjandi afla á Íslandi.
Markmiðið er að ykkur finnist þið vera frjáls þrátt fyrir festuna.
Nú er ungu fólki boðið að eyða því sem gæti helst talist uppbót á ellilífeyri
(sem að dugir vel að merkja ekki fyrir lágmarksframfærslu)
til að eiga fyrir útborguninni í klafann.
Þetta kerfi hefur gefist fjármagnseigendum svo vel að þeir eru til í að segja
hvað sem er til að fólk haldi áfram að spila með.

Svo má ekki gleyma verðtryggingunni. Hún er tromp þessara manna.
Lán, tekið 2003, að upphæð 13,4 milljónir stendur í dag, 2016, í 20 milljónum.
Þrátt fyrir 2 milljón króna "leiðréttingu"
og að borgaðar hafi verið tæpar 14 milljónir í afborganir.
Sem að þýðir að það sé í raun búið að eyða/tapa 20,6 milljónum í/á þessu láni.
Hvar annarsstaðar á byggðu bóli þykir þetta bara í lagi?

Endilega svarið samt fyrri spurningunni fyrst.


Stóra tækifærið

Fyrir síðustu kosningar höfðu íslendingar gott tækifæri
til að breyta stjórnarháttum hér á landi með því
að kjósa önnur framboð en þessi fjögur stóru
(Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk, Samfylkingu og Vinstri Græn)

Ég leyfi mér að fullyrða að ef kjósendur hefðu lokað á 4flokkinn, þá hefði heimsbyggðin öll tekið eftir.

En svo fór að loforðaflaumurinn kaffærði nýju framboðin og fékk meirihluta.

Næstu kosningar verða sögulegar allveg sama hvernig fer. Píratar mælast stærstir um þessar mundir, en Sjálfstæðisflokkurinn er enþá mjög stór. Framsókn er illa haldin af innbyrðis deilum og virðist ætla að taka Sigmundi fagnandi aftur.

Þessvegna segi ég að stóra tækifærið sé núna.

Aldrei áður höfum við haft jafn gott tækifæri til að breyta kerfi sem að við mörg erum svo ósátt við.
Aldrei áður höfum við haft jafn gott tækifæri til að koma peningaöflunum frá.
Aldrei áður höfum við haft jafn gott tækifæri til að ná fram jöfnuði.


Að fá stjórnmálaflokk í vöggugjöf

Einkennilegur er sá íslenski siður að fólk þurfi að binda börn sín einhverjum stjórnmálaflokki þegar þau fæðast og það jafnvel áður en að börnunum er gefið nafn. Svipaða sögu má segja um trúmál, en það er efni í aðra grein. Allt of margir Íslendingar líta á stjórnmál sem keppnisíþrótt þ.e að það sé einhver sem sigrar og einhver sem tapar og að þú þurfir að styðja lið þitt sama hve langt "þjálfarinn" gengur gegn siðferði þínu og hagsmunum heildarinnar. Ef að hægt er að tala um sigra og töp í tengslum við stjórnmál, má færa rök fyrir því að flestir tapi á meðan örfáir beri sigur úr býtum. Oftar en ekki virðast stjórnmálaskoðanir erfast ættliða á milli og ef innt er eftir ástæðu er svarið yfirleitt "afþví bara". Engin svör. Engin ástæða. Enda byrjaði þetta allt fyrir svo löngu síðan, að það man enginn hina raunverulegu ástæðu ef að það var þá einhverntíman ástæða.
Svona var þetta og svona er þetta. En þetta þarf ekki að vera svona.

Stjórnmál 2.0

Internetið var fundið upp. Margir sögðu að það væri bara bóla. Margir af þeim sem sögðu að Internetið væri bóla, héldu afturámóti að fasteignapartýið sem stóð sem hæst um 2007 væri eilíft.
Margir af þeim óska þess nú að internetið hefði bara verið bóla. Því að internetið á erfitt með að gleyma. Internetið gleymir ekki 500milljón evra láni seðlabankans til Kaupþings korteri í hrun. Internetið gleymir heldur ekki hverjir vildu borga IceSave plús vexti. Við lifum á upplýsingaöld. Það er aragrúi upplýsinga sem að við getum orðið okkur úti um, bara með smá leit. Google er vinur okkar. Enþá amk.
Með internetinu er hægt að færa stjórnmál yfir í nýjar hæðir. Beint lýðræði er auðfengnara. Auðveldara er fyrir stjórnmálamenn að vera í tengslum við fólkið í landinu og síðast en ekki síst þá er auðveldara fyrir fólkið í landinu að vera í tengslum við stjórnmálamenn. Þar byrjar aðhaldið og ef að einhver efast um að það þurfi eitthvað aðhald, þá hefur viðkomandi ekki verið mikið að fylgjast með fréttum síðustu ár. Samt sem áður veigra stjórnmálamenn sér við því að taka tæknina í sína þjónustu þar sem að þeim hentar betur gamla pólítíkin. Gamla pólítíkin er í andarslitrunum. Upp rísa gamlir stjórnmálarefir og krefjast þess að ekkert breytist. Þeir munu ekki hafa erindi sem erfiði.

Heilagi sannleikurinn

 Ég þekki marga sem að hafa "erft" stjórnmálaskoðanir forfeðra sinna og kjósa sinn flokk algjörlega óháð því hvort að það stuðli að bættum hag þeirra eða þeirra nánustu. Margir öryrkjar kjósa sömu velluna í von um að eitthvað lagist frá því síðast. Margir sjómenn sem hafa farið illa úr kvótabullinu öllu kjósa þá sem komu kerfinu á koppinn. Afhverju? Jú, því að það er alltaf erfitt að breyta til. En það þarf ekki að vera svo erfitt.
Við þurfum ekki alltaf að sætta okkur við orðinn hlut. Við þurfum ekki alltaf að vera hrædd. Stundum þurfum við bara að þora að skipta um skoðun (já, það má). Stundum þurfum við að þora að axla ábyrgð. Stundum þurfum við að hreinsa til. Það er enginn einn heilagur sannleikur. Það er enginn einn bestur.
Aðeins öll saman erum við best.

Umræðupólítík.

Pólítík á Íslandi hefur verið eins í fjöldamörg ár. Alþingi skiptist í 2 lið. Stjórn og stjórnarandstöðu.
Svo byrjar karpið. Stjórnarandstaðan má aldrei vera sammála stjórninni allveg sama þó að um sé að ræða mál sem að samhugur er um meðal þjóðarinnar. Stjórninni dettur heldur ekki í hug að grípa þau góðu mál sem að stjórnarandstaðan hefur fram að færa. Umræður eru oft ómálefnalegar og fara fram af miklu offorsi. Frammíköll eru algeng og því er það svo að þjóðin á erfitt með að bera virðingu fyrir þinginu. Þessu þarf að breyta. Ákvarðanir þarf að taka eftir upplýstum leiðum, þar sem allt er upp á borðum og ekkert leynimakk á sér stað. Ekkert sérhagsmunapot, engar ívilnanir og enginn frændhygli. Við þurfum opna umræðu. Ákjósanlegt væri að sem flestar stéttir ættu sér fulltrúa á þingi (eins og upphaflega hugmyndin var) en ekki bara að þar sitji fólk, sem hefur "fengist" til starfsins í gegnum skyldleika. Um leið og við stígum upp úr sandkassanum, hættum upphrópunum og sættumst á rökræður, þá mun Alþingi aftur njóta virðingar. Viti borið fólk á auðveldlega að geta rætt saman þó að það hafi mismunandi skoðanir.

Hver er ómissandi?

Misskipting á Íslandi hefur alltaf verið mikil. Þrátt fyrir loforð um bættan hag aldraðra og öryrkja þá hefur heilbrigðiskerfið sjaldan eða aldrei staðið verr. Einhverja milljarða vantar til að það sé hægt að reka hérna fullkomið heilsugæslukerfi, þar sem þegnar landsins þurfa ekki að draga upp veskið þegar þeir heimsækja lækninn. En þeir peningar eru aldrei til. Ekki einusinni þegar okkur er lofað að það verði yfir 70 milljarða afgangur af fjárlögum. Afhverju ekki að þrusa hluta af þessum peningum í heilbrigðiskerfið? Þrátt fyrir fögur fyrirheit um afnám verðtryggingar, þá er hún alltaf notuð sem kosningaloforð. En samt gengur ekkert að afnema hana. Fólkið sem lofar því að afnema hana á fjögurra ára fresti sér samt enga ástæðu til að hleypa öðrum að, sem að kannski gætu afnumið hana á fjórum árum. Það er hluti af gömlu pólítíkinni. Annar hluti af gömlu pólítíkinni er að gera lítið úr "andstæðingnum". Fara í manninn en ekki málefnið. Margir hafa fallið í þá gryfju, að fara að smána persónu, aðeins vegna þess að hún hefur aðrar skoðanir. Að mínu mati ættu ekki að vera til atvinnupólítíkusar. Um leið og mannlegi þátturinn fer að dala, þá ætti að skipta fólki út. Fá ferska strauma inn.

Ríka ríkið

Eins og flestir vita eigum við nánast öll heimsmet, þegar miðað er við höfðatölu. Við gætum verið ríkasta þjóð í heimi, þar sem allir þegnarnir gætu lifað mannsæmandi lífi. Við gætum verið menntaðasta þjóð í heimi, ef að allir hefðu jöfn tækifæri til menntunnar. En svo er ekki, vegna þess að auðnum er misskipt. Honum er misskipt á milli þeirra sem að setja lögin og skyldmenna þeirra. Aðrir fá nasasjón af honum, gegn því að lofa eitilhörðum stuðningi við viðkomandi flokk en svo eru enn aðrir sem aldrei fá neitt. Ef að auðlindum landsins væri skipt jafnt á alla, væru allir íslendingar sæmilega stæðir. Við myndum útrýma fátækt og gætum byggt upp hér þjóðfélag þar sem allir hefðu jafna stöðu. Jafna möguleika á menntun.
Ísland er sennilega (enn og aftur miðað við höfðatölu) best stæða ríki heims þegar litið er til auðlinda. Gerum nú eitthvað skynsamlegt úr þessu. Byggjum upp jafnrétti. Stöndum saman. Leyfum öllum landsmönnum að njóta ágóða auðlindanna.


Um bloggið

Kristinn Ágúst Eggertsson

Höfundur

Kristinn Ágúst Eggertsson
Kristinn Ágúst Eggertsson

Höfundur er Pírati og í 6. sæti á lista þeirra í suðurkjördæmi.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband